Um verkefnið

Þegar Sovétríkin féllu, í lok níunda áratugar síðustu aldar, féll einnig stjórnkerfi, hugmyndafræði og lífsstíll milljóna manna. Eftir fjörutíu ár af kommúnískri hugsjón var svo komið að frjálslyndur kapítalismi Vesturlandanna hafði unnið og reið nú yfir. Vestræn, frjálslynd gildi voru æðri þeim kommúnísku. Allt sem Sovétið hafði byggt upp varð verðlaust á örskotsstundu án frekari umhugsunar um hugsanlegan lærdóm, sem efnishyggnir og einstaklingssinnaðir Vesturlandabúar gætu dregið af stefnu sem miðaði að jöfnuði.

Margir hafa gagnrýnt hversu afdráttarlaust hugmyndafræði kommúnisma var hafnað eftir fall hans og segja konur sérstaklega hafa orðið illa úti. Margt bendir þó til þess að jafnréttið hafi ekki verið jafn mikið undir kommúnisma og þáverandi stjórnvöld ríkjanna héldu fram.

Í ritgerðinni verður leitast við að svara spurningunni um hvaða áhrif breytingarnar frá kommúnísku stjórnkerfi yfir í frjálslynt markaðshagkerfi hafi haft á kynjajafnrétti í Mið- og Austur-Evrópu. Ekki var unnt að skoða öll fyrrverandi kommúnistaríki í Evrópu, en fjallað verður um Tékkland, Slóvakíu, Pólland, Ungverjaland, Búlgaríu og Austur-Þýskaland. Það er eftir vill ekki rétt að alhæfa um þessi ríki, þar sem kynjajafnrétti í þeim er ekki einsleitt, en eins Purvaneckiené (1998) segir, þá byggðist félags- og efnahagsstefna ríkjanna á stefnu Sovétríkjanna, sem alhæfði um konur og því varð einsleitni í ríkjunum á því sviði (sbr. Lafont, 2001).

Tilgátan, sem sett er fram, er sú að breytingin frá kommúnisma yfir í frjálslynt markaðshagkerfi hafi haft neikvæð áhrif á stöðu kvenna, og þar með kynjajafnrétti, í fyrrum kommúnistaríkjum Austur-Evrópu. Harper (1999) segir breytingarnar yfir í markaðshagkerfi hafa skapað félagsleg og efnahagsleg vandamál svo sem aukið atvinnuleysi, verðbólgu, launalækkanir og almennt efnahagslegt óöryggi (sbr. Lafont, 2001). Jafnframt, hafa skýrslur Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) staðfest að konur í fyrrum kommúnistaríkjum hafi verið beittar meira misrétti en karlar í kjölfar breytinganna og þær hafi í raun misst hluta réttinda sem þær höfðu áður (sbr. Poolos, 2000).

Til þess að mæla hvort kynjajafnrétti hafi breyst verða bornir saman þættir sem snúa í fyrsta lagi að atvinnuumhverfi, svo sem atvinnuþátttaka, kynbundin verkaskipting og atvinnuleysi. Í öðru lagi verður borin saman stjórnmálaþátttaka og í þriðja lagi þættir sem snúa að barneignum, svo sem dagvistun og réttur til fóstureyðinga, fyrir og eftir fall kommúnismans. Ef tilgátan reynist rétt ætti stjórnmálaþátttaka að hafa minnkað, atvinnuumhverfi kvenna að hafa versnað, og félagslegt umhverfi barneigna að hafa neikvæð áhrif á stöðu kvenna eftir fall kommúnismans.

Heimildirnar sem lagðar eru til grundvallar ritgerðinni eru rannsóknir og lýsingar sem gerðar hafa verið á kynjajafnrétti í kommúnistaríkjum fyrir og eftir breytingarnar, af fræðimönnum frá ríkjunum sjálfum og af öðrum þjóðernum. Hafa ber í huga að gögnin eru því ekki frá fyrstu hendi. Öll mistúlkun á þeim eða önnur mistök eru því á ábyrgð undirritaðrar.

Örstutt um efnið
Það sem vitað er um viðfangsefnið er að á tímum kommúnismans voru austur-evrópskar konur jafnar körlum samkvæmt lögum og stóð jafnrétti kynjanna að minnsta kosti að nafninu til langt framar Vestur-Evrópu. En þegar betur var að gáð stóðust ekki háleit markmið hugmyndafræðinnar og gamlar hefðir fyrir feðraveldi og hefðbundinni verkaskiptingu voru í raun enn í fullu gildi. Þegar Austur- og Vestur-Þýskaland sameinuðust og eftir að Mið- og Austur-Evrópuríkin breyttust í frjálslynd markaðshagkerfi minnkaði atvinnuþátttaka kvenna. Hún hafði verið mjög mikil á tímum kommúnismans en þegar félagslega kerfið hvarf, hurfu um leið forsendur kvenna til þess að stunda launavinnu, til dæmis barnagæsla svo eitthvað sé nefnt. Það hefur einnig verið erfitt fyrir konur að sætta sig við aukið atvinnuleysi og minni möguleika á að stunda vinnu. Þær voru ekki vanar því að vera á framfæri eiginmanna sinna og aðstæður þeirra eftir fall kommúnismans hafa þar af leiðandi haft slæm áhrif á sjálfsmynd þeirra.

Í kommúnískum ríkjum ríkti því lagalegt jafnrétti milli kynjanna en ekki raunverulegt innan veggja heimilanna. Sú staðreynd skapaði flókið mynstur samskipta þegar kom að breytingunni yfir í frjálslynt markaðshagkerfi. Hugmyndin um versnandi aðstæður kvenna undir markaðshyggju varð því tvíeggjað sverð. Annars vegar gagnrýni á nýtt frjálslynt skipulag og hins vegar afsökun til þess að útiloka konur frá þátttöku í stjórnmálum því forsendur þátttöku, súpueldhús og barnagæsla, voru brostnar. Hugmyndin um að jafnrétti ríkti varð þess vegna raunveruleikanum oft yfirsterkari. Það gerði það að verkum að umfjöllun vestrænna rannsakenda á jafnrétti í fyrrum kommúnistaríkjum varð á skjön við það sem fólkið sjálft upplifði. Það gerði það jafnframt erfitt að fjalla opinskátt um undirliggjandi vandamál og að taka á þeim þar sem ríkin viðurkenndu ekki kynjamisrétti.

3 ummæli:

Halli sagði...

fann áðan bók í hillu 123 í bókasafninu Fjólustræti: http://www.biblio.com/isbn/9211301521.html

við gluggann
HXM
MDC

VICIADOS EM CAFÉ sagði...

Pena não mais me lembrar do pouco russo que aprendi.

Laufey sagði...

Líst vel á það sem ég hef lesið - tími ekki að lesa allt í einu, langar að melta á milli (getur maður kannski ekki sagt svoleiðis). Rosalega áhugavert efni, hlakka til að lesa meira seinna.